Thursday, March 12, 2015

Hvert eiga SHA að stefna?

Þessi grein birtist í Dagfara, málgagni Samtaka hernaðarandstæðinga, sem kom út í vikunni.
-- -- -- -- -- -- --

Veður eru válynd í heiminum og spjót heimsvaldasinna standa á öllum sem reyna að fara eigin leiðir: Sýrlendingar vaða elginn gegn IS-skrímslinu sem Vesturveldin hafa magnað upp gegn þeim; Úkraínumenn eru komnir undir hæl fasískra valdaræningja á bandi Vesturveldanna; Líbýa logar stafna á milli eftir árásarstríð og friður er hvorki í augsýn í Írak eða Afganistan, svo fátt eitt sé nefnt.
 
Í aðdraganda síðara Íraksstríðs, veturinn 2002-2003, hélt Átak gegn stríði vikulega útifundi gegn áformum Amríkana og hjáleigubænda þeirra nær og fjær. Laugardagsmótmælin stóðu mánuðum saman við Stjórnarráðið og stundum líka við amríska og jafnvel breska sendiráðið. Okkur tókst ekki að hindra að morðingjarnir í jakkafötunum tækju þátt í svívirðilegum glæpum í nafni Íslands − en þeir gerðu það að minnsta kosti ekki óátalið. Ef það skiptir einhverju máli.
 
Þó það sé dapurlegt að þurfa að mótmæla stríði, þá er samt uppörvandi að upplifa samstöðuna í baráttunni, að sjá hundruð manns koma aftur og aftur á útifundi til að sýna að stríðið sé ekki okkar stríð, ekki háð með okkar samþykki og að ríkisstjórnin tali ekki fyrir okkur. Ég var einn margra sem gengu í Samtök herstöðvaandstæðinga þennan vetur.
 
Ég sakna þessarar samstöðu, þessarar lifandi hreyfingar, baráttunnar. Eins og hún fyllti okkur eldmóði, fyllti hún margan stríðsæsingamanninn skelfingu og hélt fyrir þeim vöku. Í nágrannalöndum okkar voru aftur og aftur haldnir mörg hundruð þúsund eða milljóna manna fundir. Hvert fór allur þessi gríðarlegi kraftur? Hvað varð um hreyfinguna? Hvert fór baráttan? Höfum við látið slæva okkur með betur hugsuðum áróðri? Trúum við í alvöru á „íhlutun í mannúðarskyni“? Trúum við að lýðræðið skjótist út úr byssuhlaupi heimsvaldastefnunnar?
 
Þegar Líbýustríðið var að byrja héldu nágrannar okkar í bresku friðarhreyfingunni mótmæli gegn Líbýustjórn. Ég held að þá hafi botninum verið náð í niðurlægingu hreyfingarinnar frá 2002/3. Eða ég vona alla vega að það hafi verið botninn.
 
Á meðan heimsvaldastefnan heldur áfram að níðast á saklausu fólki um allan heim, þá verður þörf fyrir friðarhreyfinguna. Ekki til að tilkynna kurteislega að okkur hugnist ekki stríð. Ekki til að fræðast um löndin sem er verið að ráðast á eða til að drekka öl. Heldur til þess að reyna − reyna í alvöru − að hindra að stríð brjótist út og stöðva þau ef það gerist samt. Í íslensku samhengi þýðir þetta að hindra að Ísland styðji heimsvaldastríð, og að leggja alla þá steina sem hægt er í götu þess. Það er baráttan og aðeins baráttan sem réttlætir hreyfinguna.
 
Það er þörf fyrir hreyfingu sem er virk og lifandi, sem er vaxandi að styrk og áhrifum, hreyfingu sem tekur hlutverk sitt alvarlega. Samtök hernaðarandstæðinga eru meira en geymsla fyrir arfleifð úr baráttu fyrri tíma. Við erum burðarásinn í íslensku friðarhreyfingarinnar. Við eigum að vera baráttusamtök sem íslenskir hermangarar taka alvarlega. Refsivöndur sem þeir óttast.
 
Það styttist í landsfund SHA. Hann er vettvangurinn til að marka samtökunum stefnu fyrir komandi starfsár. Gerum það.

-- -- -- -- -- -- --
Landsfundur SHA er á laugardag, 14. mars. Ég gef kost á mér til formennsku.

No comments:

Post a Comment